Úrdráttur

Rafsegulsvið! Hœtta eða hugarvíl © VGV  hluti 9  

9.  Jarðgeislar.

 

            Jarðárur, vatnsárur, jarðgeislar, svartir straumar (Black Streams) eða „Geopathic Stress“ er heiti á fyrirbæri sem valdið hefur miklum heilabrotum.  Í umræðunni um rafsegulsvið er títt talað um „línur“ eða strauma.  Reyndar eiga jarðgeislar ekkert skylt með umræðunni um rafsegulmengun.  Svo virðist sem þessi tvö mál hafa blandast það rækilega saman að úr er orðinn kokteill sem erfitt er að skilja í sundur.  Þessi fyrirbæri, jarðárur, hafa fylgt mannkyninu í ómunatíð.  Mæliaðferðin til þess að finna jarðgeisla byggist á „prjónamælingu“ eða mælingu með „spákvist“.  Þessu fyrirbæri er mjög oft ruglað saman við rafsegulsvið.  Staðreyndin er sú að þetta tvennt á ekkert skylt.  Þegar maður gengur með prjóna í höndunum dragast þeir saman þegar þeir koma inn í orkusvið.  Þetta eru eins og töfrar, engu líkara er en segulsvið dragi þá saman.  Þarna er líklegast komin skýringin á þessum ruglingi.  Það er þó ekki segulsvið sem er þarna að verki.  Því miður hefur umræðan um áhrif af rafsegulsviði verið ruglað við þessi fræði, svo mjög að erfitt er að koma fólki í skilning um að hvort sviðið verður að skilgreina á sinn hátt og ekki dugir að rugla þessu saman.  Rafsegulsvið er mælanlegt með mælitækjum.  Rafsegulsvið er skilgreint mjög vandlega í eðlisfræðinni sem og öll rafbylgjufræðin.  Jarðgeislar eru það hinsvegar ekki.  Frá vísindalegu sjónarmiði eru jarðgeislar ekki til.  Eina þekkta mæliaðferðin, til að mæla jarðárur, er með prjónum, spákvist eða pendúl.  Vísindamenn hafa oftsinnis reynt að finna þessi svið en án árangurs.  Vegna þess hvernig mæliaðferðin er geta raunvísindin ekki viðurkennt þessi svið.  Það stríðir gegn grundvallarlögmálum raunvísinda og það verður ekki fyrr en mælitæki koma fram sem og skilgreining á fyrirbærinu sem raunvísindi geta sinnt eða skoðað þessi fræði.  Þar til verða áhugamenn að notast við prjóna og heiðarleika.  Vegna þess hve umræðan hefur verið blönduð hér á landi er mjög erfitt að lesa úr sögum, sem sagðar eru af furðulegum áhrifum rafsegulsviðs, hvort um jarðgeisla eða rafmengun hefur verið að ræða. Það er rétt að geta þess að margir sérfræðingar, jafnvel lærðir læknar, hafa tileinkað sér prjónmælingar og telja þeir að jarðgeislar séu til og hafi stöðug áhrif á okkur og heilsufar.  

Þetta fyrirbæri, sem mætti kalla „jarðfræðilegt streitusvæði“ virðist liggja í mis breiðum línum um jörðina, allt frá nokkrum sentímetrum upp í fleiri metra.   Það var presturinn og vatnsleitarinn (Dowser) Abbé Alexis Mermet sem fyrstur evrópubúa ritaði um þessar línur og sagði frá neikvæðum áhrifum þeirra.  Mermet þessi var vatnsleitarmaður í frístundum og notaði spákvist til að leita að neysluvatni undir yfirborði jarðar.  Vatn liggur í æðum undir yfirborðinu og teygja þær sig fleiri kílómetra. Hann hóf að fylgja æðunum eftir, til að reyna að átta sig á eðli þeirra.  Dag einn fylgdi hann línu að þorpi þar sem hún lá undir nokkur hús.  Það vakti athygli hans að þar sem línan lá undir svefnstað, brást ekki að sá sem þar svaf var sjúkur.  Jafnframt veitti hann því athygli að á steinhúsum voru sprungur í vegg þar sem vatnsæðin lá neðan við húsið.  Hann komst að þeirri niðurstöðu að þar sem vatnsæð lá undir yfirborði jarðar var einhverskonar „hættusvæði“ á yfirborðinu.  Það var ekki fyrr en löngu seinna, að farið var að veita skrifum Mermets athygli.

 

Þeir sem rannsakað hafa þessi streitusvæði fullyrða að samhengi virðist oft milli fjölda sjúkdóma og viðveru í streitusvæði.  Sjúkdómar eins og krabbamein, MS veiki, gikt, nýrna og gallsteinamyndun, asmi, mígreni, og margir fleiri virðast ill viðráðanlegri ef einstaklingur dvelur eða sefur í streitusvæði.  Einnig hafa mælingar sýnt að hús sem nefnd hafa verið í tengslum við húsasótt, hafa eina eða fleiri línur sem orsaka streitusvæði innandyra.

            Ein helstu einkenni sem ku fylgja því að sofa á streitusvæði er mikil þreyta.  Að vakna á morgnana og hafa það á tilfinningunni að maður sé þreyttari en þegar maður fór að sofa,  er dæmigert.  Síðan fjölgar einkennum og erfiðleikar með svefn plús þunglyndi bætist við.  Veikindi fara að koma upp , gnístun tanna í svefni og svitaköst.  Jafnframt er þekkt að pirringur eða bara geðvonska er mikil þar sem línur þessar eru.  Ef fleiri en ein jarðgeisli krossast undir rúmi einstaklings er voðinn vís.  Rannsóknir í Austurríki og Þýskalandi sýna að krabbamein er einn tíðasti sjúkdómurinn sem fylgir þessu árum.  Jarðgeisli getur legið milli margra húsa og bygginga og valdið skaða á flestum stöðum.  Ekki er ósjaldan talað um „krabbameinsgötur“ eða „krabbameinshverfi“ þar sem orkumiklir geislar eru og fylgja þá sögur af órólegum börnum og hjónaskilnuðum.

 

Fornar menningar.

Steinahringir sem eru sérstaklega algengir í Bretlandi og N-Frakklandi, hafa í gegn um árþúsundir vakið furðu og forvitni kynslóðanna.  Í dag er nánast ekkert vitað um þá menningu sem reisti steinana né heldur í hvaða tilgangi þeir voru reistir.  Getgátur og kenningar eru þó fjölmargar.  Steinarnir eru reistir upp á endann í hring, mismargir og misstórir.  Það má furðu sæta að þjóðfélög fyrr á tímum hafi ráðið yfir tækni til að reisa slík björg upp á endann tæplega hálf ofaní jörðina og eru sum yfir fimm tonn á þyngd.  Stonehenge er sennilega þekktasti  hringurinn og virðast vísindamenn helst hafa komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið reist sem nokkurskonar stjörnuathugunarstöð.  Línur dregnar gegnum hringinn sýna furðulega glöggskyggni fornmanna á áttir, gang himintungla og stærðfræði.  Jafnframt hafa segulmælingar sýnt, að steinarnir eru segulmagnaðir og hefur verið álitið í gegnum tíðina að steinarnir hafi lækningamátt.             Með  spákvisti hefur verið sýnt fram á að orkulínur liggja á milli steinanna og að net af orkulínum liggur á milli steinhringjasvæða og fornra bygginga,  t.d. á Bretlandi.  Orkulínur þessar hafa verið kallaðar Ley lines“ stundum þýtt sem upplýsingalína (jarðgeisli).  Gamlar kirkjur sem sagðar eru hafa góðan anda“ hafa í gegnum sig slíkar línur.  Línurnar, sem eru um einn til þrír metrar að breidd, ganga í gegnum kirkjuna og krossast í miðju altarinu.  Þessar kirkjur eru margar hverjar byggðar á rústum fornra hofa úr heiðni.  Er ekki gjörla vitað hvort kirkjur hafa verið byggðar á línunni eða línan komið eftir á.  Línurnar eru stundum tvær hlið við hlið.  Athuganir hafa sýnt að götur til forna lágu eftir þessum línum en nútíma skipulagsfræði hefur breytt því og eru nú eingöngu dýratroðningar þar sem Ley línurnar“ liggja. Margt merkilegt hefur komið fram í sambandi við Ley línur“  til dæmis er meiri líkur á yfirskilvitlegum skynjunum ef staðið er í slíkri línu en utan við.  Enskur prófessor upplifði þá athyglisverðu reynslu að sjá herdeild rómverja þramma eftir göngustíg alvopnaðir og íklæddir brynjum.  Mörgum árum seinna var þessi sami prófessor staddur á sama stað og upplifði hann þá svipað atvik.  Í kjölfarið hóf hann að rannsaka svæðið með spákvist og sýndi sú rannsókn að hann hafði í báðum tilfellum staðið inn í Ley línu“.  Hann hóf að kynna sér máið betur og komst hann að þeirri niðurstöðu að flest yfirskilvitleg fyrirbæri eins og draugagangur, FFH sýnir, og skrímslasýnir (Lock Ness) væru margfalt líklegri ef sjáandinn stæði í Ley línu“ þar sem atvik á sér stað.  Jafnframt hafa miðlar oft látið þau orð falla þegar þeir glíma við draugagang að Ley lína“ sé til staðar. Athyglisverð tilraun var gerð á línum þessum fyrir nokkru sem sýndi að hægt var að flytja upplýsingar eftir þessum línum um langa vegalengd.  Tilraunin var gerð þannig að einn maður stóð í línunni og sveiflaði pendúl eftir fyrirfram ákveðnu kerfi.  Annar einstaklingur stóð nokkur hundruð metrum frá, en inn í sömu orkulínu.  Sá maður stóð einnig með pendúl og skráði hjá sér ferli hans.  Síðan voru ferlin borin saman og kom þá í ljós að hegðun pendúlsins var eins hjá báðum.  Það er ekki erfitt að ímynda sér möguleikana sem svona línur hafa boðið upp á til samskipta og væri fróðlegt að vita hvort þær hafi verið að hluta til gerðar af manna höndum til meðal annars,  að þjóna sem samskiptanet um gervallt landið, nokkurskonar ritsími. 

 

Nálastungur.

En steinarnir gætu hafa haft önnur hlutverk en að vera stjörnuathugunarstöð  Það mætti til dæmis varpa þeirri kenningu fram að þeir vinni eins og nálar í kínversku nálastunguaðferðinni og samsvari nálum sem nálastungulæknar setja í húð manna eftir tilteknu kerfi.  Munurinn er sá að steinarnir eru nálar í móðir jörð. Tilgangurinn með slíku gæti til dæmis verið að örva lífsorku tiltekinna jarðsvæða til að gefa af sér betri uppskeru.

Saga kínversku nálastunguaðferðarinnar er talin um fimm þúsund ára gömul.  Sagan segir að hermenn sem urðu fyrir örvum óvina hafi fundið tengsl frá ör í sári og bót á öðrum meinum sem voru þó annarskonar.  Fyrir vestræn vísindi er ekki auðvelt að viðurkenna nálastungukenninguna.  Engar þekktar líffræðilegar eða raffræðilegar brautir liggja eftir þeim farvegum sem kenningin segir til um, né nokkur sjáanlegur burðarliður fyrir einhverskonar orku.  Það hefur þess vegna alltaf vakið furðu  að viðnám húðarinnar mælt með venjulegum ómmæli (Wheatstone brú) er lægra milli þessara punkta en annarstaðar á húðinni.  Brautir þessar eru sagðar liggja frá tilteknum punkti og að ákveðnu líffæri.  Kínverjar hafa kortlagt alla punktana og líffæri sem þeir höfða til. Brautirnar eru sagðar leiða lífsorku frá húðinni til tiltekinna líffæra og segja fræðin að hringrás sé í gangi allan sólahringinn og taki hún 25 tíma.

Árið 1989 gerðu tveir vísindamenn í París þeir Dr Jean-Claude Darras og Prófessor Dr. De Vernejoul merkilega uppgötvun er þeim tókst að gera sýnilegar þessar orkubrautir.  Þeir útbjuggu geislavirkan vökva sem þeir dreyptu á húð.  Síðan notuðu þeir Gammageisla myndavél til að fylgjast með útbreiðslu efnisins.  Það kom í ljós að efnið breiddist ekki um líkamann eftir sogæðakerfinu né heldur fór það inn í blóðrás.  En ef efnið var sett yfir nálastungupunkt byrjaði það að streyma inn í líkamann eftir óþekktri braut og að því líffæri sem hin fornu fræði sögðu til um.  Hraðinn á streyminu var ca 2-3 cm á mín.  og var hægt að auka hraðann með því að örva punktinn sem geislavirka efnið var sett að.  Jafnframt kom í ljós að ef tiltekið líffæri var sjúkt ferðaðist efnið mun hægar.

            Hversvegna leiðir slík braut betur rafmagn og geislavirkni en húðin?  Því er ekki auðsvarað.  Rannsóknir á þessu fyrirbæri eru ekki fyrirferðamiklar og stafar það kannski helst af því að rannsóknir eru dýrar og fjárstyrkir af skornum skammti.  Tilraunir með rafmagnsnálastungutæki hafa sýnt að rafeindir á nálastungupunkt getur virkað eins og  nálar.  Rafeindir, eða mínus spenna geta örvað punktana.  Einnig er hægt að nota leysigeisla í sama tilgangi.  Nálastungupunktar örvast við ljós og mínusjónir.  Þetta segir að sólarljós hafi kannski meira að segja fyrir líkama okkar heldur en bara að framleiða D vítamín.  Hugsanlega getur þetta skýrt þá heilsubót sem margir hljóta við að sækja sólarstrandir.  Ennfremur hefur sú kenning heyrst að heilnæmi mínus jónaðs lofts stafi af því að nálastungupunktar drekki í sig rafeindir og örvist á þann hátt. 

En eru jarðgeislar og „Ley línur“ af sama toga og orkukerfi mannslíkamanns?  Það er ansi margt sem bendir til þess.  Jarðárur eru af margvíslegum toga en mest er talað um þær neikvæðu, þ.e. þær sem hafa skaðleg áhrif á líkamann.  Við vitum ekki gjörla hvort jarðgeisli er hættuleg orka eða bara lífsorka í hættulegu formi.  Til dæmis hafa sumir líkt þessu við vatn,  ef þú ert þyrstur þá kastar þú þér ekki út í stórfljót til að drekka.  Sem sagt orka jarðgeislanna sé í raun lífsorka en kraftmeiri en svo að líkaminn geti notað sér hana. 

Svokallaðir „Dowsers“ eða vatnamælingamenn sem mæla með spákvistum, eða prjónum, hafa mikið spekúlerað í fyrirbærinu.  Þeir hafa meðal annars komist að því, að í fornum bæjum og þorpum þar sem menning reis hátt á undanförum árþúsundum finnst hvergi  hús sem reist hefur verið á jarð- eða vatnsáru. Það bendir eindregið til þess að forfeður okkar hafi haft meiri þekkingu á þessu en við nútímamenn.  Athyglisverðari kenningu gagnvart víkingatímabilinu var varpað fram fyrir nokkru.  Hún er ekki mjög vísindaleg en það er broddur í henni.  Kenningin er sú að forsenda fyrir veldi og menningu víkingana til forna hefði verið þekking á eðli jarðar.  Það risu stór þorp og mikil menning blómstraði.  En forsendan fyrir því að þorp gæti blómstrað í þessum stærðum, þar sem fullkomið heilbrigðiskerfi var ekki til,  var sú að ekki væri byggt á jarðáru.  Því reistu víkingarnir rúnasteina. Kenningin segir að þeir hafi þjónað þeim tilgangi að eyða áhrifum jarðgeisla og beina þeim í farveg sem ekki gerði skaða.  Rúnirnar á steinunum hafi verið aukaatriði.  Eftir kristnitöku er farið að líta á þetta sem kukl, hætt var að passa upp á viðhald og jarðárur fengu að ferðast óáreittar.  Þetta ku hafa markað upphaf endaloka menningarskeiðs víkinganna. 

Það er  athyglisvert að jarðárur virðast illskeyttari ef þær hafa orðið fyrir áhrifum frá rafmagni.  Hvort hér er um „mótunaráhrif“ eða rafmagnsleiðni er ekki auðvelt að átta sig á en margt bendir til að um leiðni riðspennu sé að ræða.  Þetta samsvarar því sem við vitum um nálastungulínurnar í líkamanum,  þær leiða rafmagn betur en húðin.  Sé um mótunar áhrif að ræða þá er það spurning um að ákveðnar tíðnir móti, eða berist eftir orkulínum og þá þarf að vita hvaða tíðnir eru varasamar og hverjar ekki en það liggur ekki fyrir.  Kenningar hafa komið fram sem segja að tíðnisviðið 0 rið til 100 þúsund rið sé það sem hafi mest áhrif á okkur.


Að utan.

 Til er fyrirtæki í London sem nefnist Dulwich Health Society“.  Þetta fyrirtæki sérhæfir sig í gagnaöflun og fréttum af þessu fyrirbæri sem þeir nefna Geopathic Stress“.  Fyrir nokkrum árum kom út bók í London sem nefnist  Are You Sleeping in A Safe Place“.  Höfundurinn, Rolf Gordon missti son sinn 26 ára gamlan úr krabbameini.  Rétt fyrir andlát hans kom í ljós að rúm hans var yfir kraftmikilli vatnsæð.  Rolf taldi að áhrif frá vatnsæðinni hefðu orsakað veikindi sonar hans og hét hann því að rannsaka þetta fyrirbæri.  Hann hóf umfangsmikla gagnasöfnun sem nú spannar yfir þúsundir tilfella.  Í skýrslum Gordons segir m.a. frá fimmtán ára gamalli stúlku; Lindu.  Hún var í skóla og voru fjarvistir hjá henni tíðar vegna veikinda.  Þegar hún tók upp á því að sofna í tímum, fóru kennarar fram á það við foreldra hennar að hún gengist undir læknisrannsókn.  Fljótlega  kom í ljós að hún var með hvítblæði.  Linda gekkst undir lyfjameðferð og mergskiptingu með tilheyrandi aukaverkunum.  Þetta gerðist 27. febrúar 1984.  Í nóvember sama ár yfirgaf hún spítalann.  Fyrst í stað svaf Linda í rúmi móður sinnar og byrjaði jafnt og þétt að ná bata.  Í byrjun mars 1985 flutti Linda í sitt eigið rúm.  Í mars lok fór Linda í eftirskoðun og öllum til hrellingar kom í ljós að hvítblæðið virtist hafa tekið sig upp aftur.  Þetta var áfall fyrir fjölskylduna og vildu læknar grípa strax til ráðstafanna.  Vinnufélagi móður Lindu frétti af þessu og nefndi við hana hvort ekki væri ráð að mæla fyrir jarðáru í herbergi Lindu.  Engin úr fjölskyldunni hafði heyrt minnst á jarðárur eða neitt slíkt en þau voru örvæntingarfull og vildu reyna allt til að Linda fengi bata aftur.  Mælingamaður kom í heimsókn og fann hann fljótlega tvo geisla sem krossuðust í miðju rúminu.  (sjá mynd 1.) Hann hafði orð á því að Linda hefði ekki í allri íbúðinni geta sofið á verri stað.  Þegar Linda hugsaði til baka þá áttaði hún sig á því að þegar hún flutti úr rúmi móður sinnar og í sitt eigið þá fann hún fyrir vanlíðan, þreytu og eins og nálardofa í öllum líkamanum.  Í apríl fór Linda síðan í skoðun á sjúkrahúsið og komust þá læknar að því að dregið hefði úr einkennum og væri ástæða til að bíða með frekari aðgerðir.  En líðan Lindu gjörbreyttist, hún fann ekki lengur fyrir þreytu á morgnana og náladofi í líkamanum var horfinn.  Nokkrum mánuðum seinna var hún orðin heilbrigð og athafnasöm. 

Kennslukona frá Ástralíu, Kathe Bachler, hefur  rannsakað rúmlega ellefu þúsund svefnstaði, á yfir þrjú þúsund heimilum.  Hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að jarðárur eru virkt afl í öllum meiriháttar veikindum.  Jafnframt komst Fr. Bachler að þeirri merkilegu niðurstöðu að 95% barna sem áttu erfitt með nám, sátu í streitusvæði í skólanum eða höfðu slíkan geisla í rúmi heima fyrir.  Við að færa skólaborð eða rúm úr geislanum náðu börnin betri árangri en áður.  Kathe gaf út bók sem fjallar um rannsóknir hennar sem nefnist  „Discoveries of a Dowser“ þar sem hún styður kenningar sínar með reynslu sinni. 

Dr. Otto Bergmann, sem er prófessor við háskólann í Vínarborg framkvæmdi ásamt hópi fræðimanna, sem nefndu sig „Working Party for Research into Geopathic Stress Sites“ mjög yfirgripsmikla rannsókn.  Athuganir voru margþættar og voru gerðar rúmlega fjögur hundruð sextíu og tvö þúsund mælingar á sjálfboðaliðum í tæplega sjö þúsund tilraunum.  Níuhundruð áttatíu og fimm manns tóku þátt í  þessari tilraun.  Rannsóknin fór þannig fram að sjálfboðaliði var látinn sitja á stól í tíu mínútur. Blóðprufur voru teknar fyrir og eftir setu, jafnhliða nokkrum öðrum mælingum.  Til að fyrirbyggja „þóknunaráhrif“  (Placebo effect) var tilraunin gerð við mismunandi aðstæður.  Stundum í streitusvæði og stundum ekki og vissu fáir útvaldir hvort var. 

Niðurstöður sýndu að í öllum tilvikum mátt greina neikvæð áhrif af viðveru í streitusvæði.  Tímaritið „Natural Medicine“ skrifaði um þessar rannsóknir og sagði meðal annars „það er vart hægt að ímynda sér afleiðingarnar af því að sofa í slíku streitusvæði í fjölda ára þegar tíu mínútur hafa eins afgerandi áhrif“.

 

Í gamla daga.

Kínverjar hafa ævaforna kenningu um okulínur jarðarinnar, svokallað Feng-shui.  Sagt er að lifandi orka tiltekins svæðis hafi orku „chi“ sem verði að fá að streyma hindrunarlaust eftir eigin braut annars hlaðist hún upp og breytist í eitrað og eyðileggjandi „sha“.  Þessar brautir geti raskast með aðgerðum manna, t.d. með húsbyggingu,  raflínum, símalínum eða vegagerð.  Á síðustu öld höfðu Kínverjar stöðugar áhyggjur af aðgerðum vestrænna manna vegna þess að ekkert tillit var tekið til „Feng-shui“.  Ef t.d. háspennumöstur með raflínum eru byggð þvert á „Chi“ línu, getur orkubrautin skipt sér,  hluti af henni leggst á raflínuna og ferðast með henni ótiltekinn kílómetrafjölda síðan á einhverjum stað þar sem ákveðin skilyrði skapast fer hún niður á jörðina þar sem hún „streymir“  eftir nýrri braut þar sem slík lína hefur ekki verið áður.  Þetta orsakar mjög magnað „sha“ nálægum íbúum til skelfingar.


Kirilian.

Kirilian ljósmyndatæknin var uppgötvuð snemma á öldinni og hefur vakið mikla furðu fræðimann.  Meðal annars sýna ljósmyndir úr vélinni nálastungupunktana.  Það sem mesta undrun hefur vakið er þó sú staðreynd að ef t.d. laufblað er ljósmyndað sést einskonar orkukerfi í blaðinu.  En ef laufblaðið er skorið í sundur og annar helmingurinn myndaður kemur fram mynd af öllu blaðinu.  Sem sagt báðir helmingar hafa einhverskonar orkubrautir sem samsvara hinum afskorna helmingi.  Jafnframt hefur verið sýnt fram á að heilarar hafa mun meiri útgeislun í höndum en venjulegt fólk.  Það er hugsanlegt að Kirilian ljósmyndir hafi opnað okkur sýn inni í heim orkukerfis sem við skiljum ekki.  Við erum fálmandi og óörugg gagnvart þessu fyrirbæri alveg eins og þeir vísindamenn sem fyrstir rannsökuðu rafmagnið.  Það er fróðlegt að lesa um tilgátur og kenningar hinna gömlu fræðimanna á rafmagni, sumar eru út í hött en lýsa því glöggt hversu erfitt er að fá heilstæða mynd af óþekktum fyrirbærum.


Binni.

            Brynjólfur Snorrason er maður búsettur norður á Akureyri.  Hann hefur í fjölda ára rannsakað jarðgeisla og áhrif þeirra.  Fljótlega eftir að hann tók að starfa við nudd í heimabæ sínum, Akureyri, fór hann að furða sig á því hversu margir af þeim, sem fengu hjá honum góða bót, versnuðu fljótt aftur eftir meðferð.  Hann tók sig því til og  skoðaði húsakynni þessara einstaklinga í leit að skýringu. Honum sagði að sér til mikillar furðu sá hann oftar en ekki dauf ljósfyrirbæri við hús þessa fólks.  Þetta lýsti sér sem daufur flórandi bjarmi sem gat verið allavega á litinn.  Fljótlega komst hann að þeirri niðurstöðu að ljósið tilheyrði einhverju orkukerfi í jörðinni og virtist í sumum tilfellum um áhrif frá vatnsæð að ræða en í öðrum tilfellum virtist vara einhverskonar áhrif frá rafmagnstækjum.  Hann nefndi þetta fyrirbæri jarðáru eða jarðgeisla.  Honum varð það einnig ljóst að aðrir sáu ekki það sama og hann nema einstaka sjáendur.  Erla Stefánsdóttir hefur til að mynda séð og lýst þessum brautum en Erla er þekkur sjáandi.  Jarðgeislinn er nokkurskonar „streitusvæði“ (Geopathic Stress) og virtist aðal orsakavaldur í afturkipp þessara einstaklinga sem Binni stundaði.   Eftir miklar rannsóknir og tilraunir tókst honum að finna leiðir til að eyða þessum jarðárum.  Þróaði hann svokallaða „spólu“ sem sett er í orkusviðið eftir kúnstarinnar reglum og fullyrðir Brynjólfur að spólan eyði áhrifum frá vatnsæðinni.  Það eru fjölmargir einstaklingar sem þakka honum bætta heilsu og jafnvel lífgjöf.  Í dag notar Binni myndbandsupptökuvél sem var þróuð af virtum Kirilian fræðingi, Harry Oldfield.  Þessi vél ku greina jarðárur, jafnframt því að sjá orkusvið í umhverfi mannslíkamans.  Fjöldi mynda er til úr þessari vél sem sýna furðuleg svið í kringum fólk og dýr.  Binni segir að greina megi hættulega sjúkdóma á byrjunarstigi með þessari vél en einnig sér vélin rafmagnskapla inni í steinsteyptum veggjum.  Kindur með riðuveiki hafa verið myndaðar með þessari tækni og segir Binni þar koma fram að allar bera þær sömu einkenni á myndum en orsökin fyrir því er ekki kunn.

Það er ekki bara maðurinn sem finnur fyrir neikvæðum áhrifum þessara æða.  Ekki fyrir löngu var Brynjólfur fenginn til að skoða aðstæður hjá margverðlaunuðum gæðingi.  Hrossið var orðið fótaveikt og var greinileg vanlíðan í dýrinu.  Fljótlega fann Binni jarðáru sem lá í gegnum bás hestsins.  Hrossið hafði ekki mikið rými og gat því ekki flutt sig til.  Því setti Binni upp spólu sem að hans sögn eyddi áhrifum jarðgeislans í hesthúsinu.  Og viti menn, eftir tvær vikur var hrossið aftur komið á fulla ferð á æfingavellinum, alheilbrigt. 

           

Hvað er „jarðgeisli“?

Það er ekki vitað.  Þjóðverjar hafa varið hundruðum milljóna í rannsóknir þá þessu fyrirbæri.  Fátt er þó gefið upp um niðurstöður á þeim vígstöðvum því þarna eru peningamenn að leita tekna.  Takist að sýna fram á þetta fyrirbæri með óyggjandi hætti og finna aðferð til að umbreyta neikvæðum áhrifum þess, er það gullnáma.  Það sem fundist hefur er fátæklegt og verður því miður að lýsa því með sama hætti og þrír blindir menn sem fengnir voru til að lýsa fíl.  Sá fyrsti sem leiddur var að fílnum þreifaði á rananum og sagði að fíllinn væri langur og mór.  Annar blindi maðurinn kom að fæti fílsins og sagði að hann væri eins og tré í laginu og sá þriðju kom að búknum og sagði að hann væri risastór og eins og veggur.  Svo rifust þeir um hver hefði rétt fyrir sér.  Þeir höfðu auðvitað allir rétt fyrir sér að hluta en ekkert er að marka þreifingar nema að skoða heildarmyndina. 

Þó er hægt að flokka þessar árur eftir hegðunareinkennum, og er fyrst og fremst um tvo flokka að ræða.

Annarsvegar er um að ræða vatnsáru sem myndast ofan við neðanjarðar vatnsæð.  Hvers vegna það gerist er ekki vitað en kenningarnar eru fjölmargar.  Nokkrir vísindamenn hafa komist að því að yfir vatnsæð er mælanlegt frávik í segulsviði jarðar.  Einnig hafa danskar rannsóknir sýnt að rafleiðni í jarðveg er meiri þar sem árur liggja en slíkar mælingar eru einnig notaðar af jarðvísindamönnum til að finna vatn í jörðu.

Hin tegundin sem um ræðir er svipuð að flestum eiginleikum, nema ekki er um að ræða vatnsæð undir yfirborði.  Hugsanlega eru þar æðar af ýmsum efnum, t.d. járnoxíð nú eða sprungur í bergi.  Í þessum æðum er mikið um að vera eins og í vatnsæðunum og flytja þær fjöldann  allan af radíóbylgjum bæði gerða af manna höndum og  náttúrulegar.  Ennfremur er hægt að ímynda sér að þar sem sprunga er í jörðinni, eða æð undir yfirborði, sé svörun jarðar við rafsviði jónahvolfs og skýja með örðum hætti en nærliggjandi svæða.  Þannig myndist lína yfir misgengi sem hafi annan styrk rafsviðs. Vatn í slíku misgengi getur verið tengt gríðarlegu vatnskerfi og þess vegna verið í tengslum við jökla og vötn í hundraða kílómetra fjarlægð.  Sé þrumuský, eða bara ský með háa rafhleðslu, hangandi yfir vatninu má búast við að áhrif frá því nái alla leið að misgenginu. Vandinn er sá að það skýrir ekki neikvæð áhrif.  Að vísu er til fyrirbæri sem vakið hefur athygli höfundar, en það eru hús og íbúðir sem virðast soga að sér sót og óhreinindi úr lofti.  Þrátt fyrir að hús þessi séu staðsett fjarri þungum umferðagötum og í engu frábrugðin húsi nágrannans er sót á veggjum svo mikið að hálfu ári eftir að málað er kemur far undan myndum sem hanga á veggjum.  Hvít skella myndast og sést þá að veggurinn í kring er dökkur að skít.  Ál og málmrammar skilja eftir sig geislabaug af skít sem liggur eins og í línum frá rammanum.  Þetta er fyrirbæri sem er með öllu óútskýrt en leiða má líkur að því að um jafnspennumyndun  (upphleðsla stöðurafsviðs)  sé að ræða.  Einnig má gæla við þá hugmynd að hús með þessu fyrirbæri séu ofan á misgengi sem valdi öðru rafsviði í húsinu en umhverfinu.  Kannski langsótt en þetta væri hægt að mæla með þar til gerðum mælum. 

Mjög margir hafa kastað þeirri kenningu fram að áhrif af streitusvæði séu þau sömu og af völdum segulsviðs og rafgeislunar, og það sé fyrst og fremst ónæmiskerfi líkamans sem truflast.  Eitt af mörgum forvitnilegum atriðum í sambandi við streitusvæði er það að sum dýr t.d. kettir sækja í streitusvæði.  Einnig hefur það sýnt sig að plöntur eins og t.d. sveppir, eik, fura og jafnframt sum sníkjudýr og bakteríur (listería) þrífast beinlínis vel á slíkum svæðum.  Binni segir það hafa sýnt sig að fjós og frystihús sem hafa verið meðhöndluð gagnvart rafmengun og jarðárum hafa verið með mun lægri talningu á listeríu eftir aðgerð en fyrir.

           

Hvernig finna menn jarðgeisla.

Jarðgeislar eða streitusvæði eru fundin með óhefðbundnum aðferðum eins og pendúl, spákvist eða L-prjónum.  Aðgengilegast er að nota tvo stálprjóna sem mynda L.  Það er mjög einfalt að klippa niður tvö vírherðatré og fást þannig ágætis prjónar (sjá mynd 2.).  Prjónunum er síðan haldið í sitthvorri hendi og vísar lengri endinn fram.  Gæta verður þess að prjónarnir leiki alveg lausir.  Sá sem hyggur á mælingu einbeitir sér að því sem hann ætlar að finna.  Síðan er gengið rólega áfram.  Þegar mælingarmaður gengur inn í geisla af jarð eða vatnsáru þá snúast prjónarnir eins og fyrir áhrif seguls, annaðhvort hvor frá öðrum eða í kross.  Með því að ganga skipulega um er hægt að kortleggja geislann eða geislana.  Fyrir suma virkar þessi aðferð sláandi vel.  Vatnsleitarmenn sem nota þetta verkfæri hafa náð ótrúlegum árangri.  Hinsvegar er rétt að vara við því að þetta er ekki óbrigðult verkfæri.  Flestir sem þetta prófa geta mælt fyrir sjálfan sig en ekki fyrir aðra.  Til þess þarf hæfileika sem ekki er öllum gefinn.  Fyrir viðkvæma og þá sem eru að jafna sig eftir veikindi er ekki ráðlegt að nota þetta verkfæri því mikið álag fylgir því.

 

Tékkneski prófessorinn Dr. Zaboj Harvalik var mikill áhugamaður um notkun spákvista.  Hann gerði tilraun sem miðaði að því að finna út hvort hægt væri að finna segulsvið með spákvist.   Dr. Zaboj setti niður í jörðina tvö rör með 18 m millibili og tengdi við það spennugjafa sem gat leitt straum í jörðina frá 0 - 150 milliAmper.  Síðan fékk hann vatnsleitarmenn til að ganga yfir svæðið milli röranna til að vita hvort einhver viðbrögð kæmu fram.  Og það stóð ekki á viðbrögðum,  eftir miklar tilraunir var niðurstaðan sú að vatnsleitarmaður fékk greinileg viðbrögð yfir línunni milla pípanna.  Dr. Zaboj komst  að því að þeir námu svið sem orsakaðist af allt að 0,5 milliAmpera straum sem er hálfur þúsundasti úr amperi en til gamans má geta þess að 250 milliAmper renna í gegn um taug til venjulegrar 60W ljósaperu.  Í framhaldi af þessum rannsóknum gerði Dr. Zaboj tilraun sem miðaði að því að finna hvort líkaminn hefði einhverskonar móttakara fyrir utanaðkomandi rafsegulbylgjur.  Hann útbjó skermingar úr sérstakri málmblöndu sem einangrar segulsvið (Mu málmur) og kom fyrir á líkama vatnsleitarmanna.  Niðurstöðurnar voru afgerandi.  Ef skermur var utan um mitti eða höfuð, fengu vatnsleitarmenn engin viðbrögð á spákvistinn.  Eftir frekari rannsóknir komst Dr Zaboj að þeirri niðurstöðu að segulsviðsnemarnir væru annaðhvort í nýrnahettum,  heiladingli eða heilaköngli.  Þetta gefur vísbendingar um að eðli jarðáru sé raffræðilegs eðlis þar sem jarðgeislar eru fundnir með spákvist.  Lausleg tilraun var gerð hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands til að fá úr því skorið hvort prjónamælingamaður gæti mælt rafsegulsvið með prjónum.  Ekki fannst nokkur samsvörun milli þess hvort rafsegulsvið var til staðar eða ekki í niðurstöðum prjónamælingamanns.  Það er og reynsla höfundar  að prjónamælingar sýna ekki rafsegulsvið í hefðbundnum skilningi þess orðs.


Hvað er til ráða gagnvart jarðgeislum.

Nú vandast málið. Hér er ekki um vísindalega þekkt fyrirbæri og því er aðferðafræði við þetta fálmkennd. Þau ráð sem hér eru tíunduð eru gömul og misjafnt hvort mönnum hefur orðið ágengt. Það skal einnig tekið fram að við mælingar ber að taka mið af því að óskhyggja getur haft áhrif.  Einnig geta komið fram sýndaráhrif, bara það að sjá sprungu í vegg getur kallað fram hreyfingu á prjónum. 

Grundvallar atriði virðist vera að dvelja aldrei í lengi á stað þar sem þessi áhrif eru til staðar.  Einfaldasta ráðið er að færa rúm eða stól út úr geislanum.  Önnur aðferð er að reka niður kopartein ca.  40 - 70 cm niður í jörðina, þar sem geislinn kemur inn, þannig að ekki standi uppúr nema 3 - 5 cm.  En takið eftir! Það kemur fyrir að slík aðferð hefur neikvæð áhrif.  Ef geislinn eyðist ekki getur verið hætta á ferðum.  Sérstaklega ef hann hefur verið jarðaður öfugu megin við húsið þ.e. þar sem hann fer út.  Því er mikilvægt, að sá sem hyggur á að eyða áhrifum jarðgeisla, hafi fullt vald á prjónamælingu og ekki er vitlaust að kalla til sérfræðing ef mikið er á seyði.  Önnur aðferð er t.d. að leggja koparvír hringinn í kringum húsið, annaðhvort að jarðtengja hann eða leiða í hann daufan jafnstraum.  Segulsviðið sem myndast í vírnum á að duga til að hindra að jarðgeisli komist inn í híbýli. Einnig hafa heyrst ráð eins og að mála rúmbotn eða vegg bláan því blár litur ku endurvarpa jarðgeislum.  Speglar og krystallar ýmiskonar hafa líka verið notaðir.  Það er ennfremur hægt að kaupa sérhönnuð tæki í þessum tilgangi bæði hérlendis og erlendis. Sagt er að jarðgeislar geti sogast að rafmagnstækjum og getur það gerst að jarðgeisli taki óheppilega stefnu vegna áhrifa frá rafmagnstæki.  

Jarðgeislar eru þannig fyrirbæri að erfitt er að sanna nokkuð um tilvist þeirra.  Mælitæki eins og prjónar eða spákvistar geta leikið í höndunum á loddurum og geta þeir sýnt fram á jarðgeisla hér og þar og síðan selt dýran búnað til að eyða þeim.  Virkni slíks búnaðar getur verið einhver, aðallega vegna svokallaðra væntingaráhrifa.  Þó eru til sagnir um virkni búnaðar af þessu tagi gagnvart dýrum og ungabörnum og því ekki hægt að tala um væntingaráhrif í þeim tilfellum.  Flóra þessara tækja er geysileg sé heimsmarkaðurinn skoðaður og sýnist sitt hverjum um ágæti þeirra.  Það skal áréttað hér að slíkur búnaður hefur í fæstum tilfellum nokkur áhrif á rafsvið eða rafsegulsvið.  Þær rannsóknir sem tíundaðar hafa verið í þessu riti fjalla allar um áhrif af rafmagnsáhrifa sem eru mælanleg og eiga sér tilveru grundvallaða á vísindum.  Þegar leitað er að jarðgeislum í híbýlum og gerðar ráðstafanir gagnvart þeim er ekki þar með sagt að búið sé að gera ráðstafanir gagnvart rafmengun.  Fjöldi dæma er til um það að jarðgeislaleitarmaður með spákvist eða prjóna gengur í gegn um kröftug rafsegulsvið og rafsvið án þess að verða nokkurs var.  Það er því nauðsynlegt fyrir þá sem hyggja á aðgerðir í þessum efnum að skoða báða þætti.  

© Valdemar G Valdemarsson 2017